Afþreying

Í sveitinni má alltaf finna sér eitthvað til dundurs, hægt að skreppa í þægilega göngutúra um næsta nágrenni, rölta niður að sjó, anda að sér hafinu og virða fyrir sér fjölskrúðugt fuglalífið. Í Skjaldarvík er starfrækt hestaleiga sem  býður upp á styttri ferðir, farið er um reiðleiðir umhverfis Skjaldarvík, riðið meðfram sjónum og upp um holtin.

Skjaldarvík stendur á fallegum stað rétt norðan Akureyrar og það tekur aðeins um 5-7 mínútur að skreppa þangað og virða fyrir sér fallegan bæinn og kanna hvað hann hefur upp á að bjóða. Það er stutt héðan til fjölmargra áhugaverðra staða, við erum boðin og búin að leiðbeina þér og aðstoða við skipulagningu ferðalagsins þér að kostnaðar lausu. Mývatn er t.d í rétt ríflega klst. akstursfjarlægð, það er ævintýri að koma til Hríseyjar, keyra Tröllaskagan og svo er Eyjafjörðurinn sjálfur er hlaðinn möguleikum og það er bara spurning hvað þig langar til að gera.

Í sveitinni eru dýr og þannig er það að sjálfsögðu hér, hestarnir okkar eru hér allt í kring og í góðu lagi að lauma brauðsneið í vasann og fara að færa ferfætlingunum. Tíkin Nótt og hundurinn Dagur eru á verði, þau kunna samt ekkert að bregðast við óboðnum gestum, því það eru allir velkomnir. Alvöru bændum þykir eflaust lítið til búskaparins koma en það eru jú ferðamenn sem eru okkar ær og kýr.