Skjaldarvík ferðaþjónusta er fjölskyldufyrirtæki, hér rekum við hjónin Óli og Dísa ásamt dætrum okkar þremur, Klöru, Katrínu og Sunnevu þetta fyrirtæki.
Hér áðurfyrr var rekið hér elliheimili til fjölda ára af mikium myndarskap - stofnað af Stefáni Jónssyni klæðskera og bónda. Vorið 2010 tókum við fjölskyldan þetta svo upp á okkar arma og stofnuðum hér ferðaþjónustu. Nú rekum við hér gistiheimili, hestaleigu og veitingastað.
Við leggjum okkur framm við að vera eins umhverfisvæn og við mögulega getum. Notum eins mikið af gömlum munum og hægt er, pússum þá upp og málum, breytum bætum eða lögum og gefum þeim nýtt líf.
Þegar kemur að matreiðslunni þá búum við nánast allt til frá grunni, bökum brauðin okkar á staðnum gerum allar sulturnar og kökurnar sjálf. Yfir sumartíman ræktum við nánast allt salat, kryddjurtir, rababara og fleira hér í garðinum. Við leggjum mjög mikið upp úr matnum, reynum að kaupa eingöngu mat úr héraði sé þess kostur og vöndum okkur við að bjóða ferskan og fallegan mat.
Partur af umhverfisstefnunni okkar er að við þvoum þvottinn okkar á staðnum og straujum helst ekki.
Dvelji gestir í fleiri en eina nótt förum við ekki inn á herbergi þeirra til að þrífa nema þess sé óskað sérstaklega.
Á staðnum er verslun þar sem má finna eitt og annað, margir hlutir sem þar fást eru búnir til á staðnum úr "rusli" (bókum, gömlum jakkafötum, og fl) Flest annað sem finna má í versluninni er búið til af vinum og kunningjum sem flestir búa í nágrenninu.
Við viljum meina að í geymslunni sé hægt að finna ýmsa gersemi sem hægt sé að nýta á marga vegu, við vonum að þú sem gestur heillist með okkur af þessari kenningu og fáir hér hugmyndir sem þú getur nýtt þér heimavið og í framtíðinni.
Velkomin í Skjaldarvík